Hreingerning

Ég ætlaði að þrífa í dag en,
þetta er svo stórt heimili. Sko undir rúminu býr draugurinn svo þar vil ég ekki þrífa, svo eru það náttúrulega hornin en þau þarf ekki að þrífa því þau eru nú eiginlega sýnishorn. Inni á baði búa silfurskotturnar og ég vil nú ekki styggja þær þessar elskur, eldhúsið er upptekið af hveitibjöllunum svo þar þríf ég bara seinna. Nú rykmaurarnir búa í rúminu um stundarsakir( eru að leita að íbúð) svo ekki er ég svo illkvittin að eyðileggja eina athvarfið þeirra. Allavega ég brynnti músunum hjá syni mínum og vökvaði blómin. En aukaherbergið í íbúðinni minni er orðið svo skítugt að ég vissi ekki í hvoran fótinn ég ætti að stíga þar svo ég bara settist niður og pústaði aðeins eftir þessa stórhreingerningu

Saga úr daglega lífinu hjá mér.

Greip með mér kassa úr vinnunni í gær til að nota undir gjöf  sem ég þurfti að senda, ómöglulegt að senda hluti í bréfi út á land. Svo skundaði ég í búðina til að kaupa gjöfina, afþakkaði pent poka, kom út og hlassaði hlutunum í kassann. Annar hluturinn var nú þegar í kassa. Skottaðist aðeins út og suður og fór svo heim. Eftir vinnu í dag kom ég heim tók kassann upp úr kassanum( enda sá kassi of stór ofan í þennan kassa) og setti hlutinn ofaní, þá var afmælisgjöfin öll komin ofaní. Þurfti nú að líma þetta vel og vandlega og merkja vel því ég þurfti að senda út á land. Get svo svarið það að ég leitaði um alla íbúðina að peningaveskinu mínu en fann það ekki. Hlýtur að vera út í bíl hugsaði ég. Þó að ég reif allt upp úr haanskahólfinu og aukahólfinu var ekkert á því að græða annað en ég verð við tækifæri að snyrta bílinn að innan. Skaust aðeins aftur inn og leitaði en fann það ekki. Skaut nú þeirri hugsun upp í mér að sonur minn fer oft kortalaus í bankann og tekur út. Ég fer bara í bankann og tek út, þannig kem ég pakkanum í pósthúsið fyrir lokun. Auðvitað redduðu þeir mér í bankanum , ég fór með pakkann á pósthúsið, spurði hvort hann færi ekki af stað fljótt ( því afmælisdagurinn er liðinn) jú hann fer af stað á eftir. Frábært hugsa ég og skunda í Nettó. Dvelst svolítið lengi í Nettó og skrönglast svo heim. Þegar heim er komið leit ég yfir íbúðina og hafði það á tilfinningunni að ég þyrfti nú kannski bara að viðurkenna að það væri kominn tími á tiltekt þá finndist veskið. Ok, gramsa í dagblöðunum sem ég hafði verið búin að setja pent ofan í blaðakassann, veskið ekki innan um blöðin en herbergið eins og vígvöllur á eftir. Tiltektin í eldhúsinu skilaði engu nema hálffullri uppþvottavél af leirtaui , fullum ruslapoka af matarleifum og eldhússtólum á víð og dreif um allt. Jæja verð bara að viðurkenna að ég hef týnt helv. veskinu BÖMMER. Haldandi á miðanum sem sannaði að ég hefði farið með pakkann á pósthúsið fékk ég mér smók. Horfi á miðann og fer að hugsa. Gríp símann og hringi í pósthúsið. Já góðann daginn, ég kom með pakka til ykkar áðan sem á að sendast á Fáskrúðsfjörð. Já er sagt á hinum endanum, hvernig er hann á litinn. Hann er brúnn og stendur ........ ... á honum. Bíddu já hann er hér. Gætirðu verið svo elskuleg og opnað pakkann fyrir mig, getur opnað botninn, ég held nefnilega að ég hafi óvart pakkað peningaveskinu mínu með.  Bíddu. heyrðu já ég sé svart peningaveski hérna. Já takk frábært, ég kem þá og sæki það.  Stelpurnar voru báðar brosandiþegar ég kom og sögðust nú aldrei hafa lent í þessu áður. 

Að baka vandræði!

Ég ætlaði sko að baka fyrir minn heittelskaða skúffukökuna sem allir eru búnir að vera að hrósa. Gramsaði í skúffunni eftir uppskriftinni, hrærði deigið, setti í ofnskúffuna og inn í ofninn. Þá skyndilega mundi ég eftir að mig vantaði kakó og flórsykur svo ég stormaði út í búð og keypti það. Er heim var komið fór ég að þvo skálina og sleikjuna. Nema hvað!! Varð mér ekki litið á endann á sleikjunni og það vantaði fremsta hlutann á hana. Skaptið er úr plasti en sleikjan sjálf úr gúmmí og það vantaði á gúmmíið. Ég hugsaði ..OMG,, ég ætla rétt að vona að það hafi vantað þetta á og kom við sárið á sleikjunni, puttarnir klístruðust allir og það var eins og ég væri með puttana fasta í lími. Henti sleikjunni og vonaði það besta. En rétt eftir þetta fór ég að finna brunalykt og varð litið inn í ofninn. Þessi líka rómaða skúffukaka var orðin alltof stór í skúffuna og farin að leka niður í ofninn( sem ég var nýbúin að hreinsa). Þá mundi ég það! Prentarinn var bilaður þegar ég skrifaði uppskriftina niður og ég tvöfaldaði hana strax um leið og ég skrifaði hana( ofnskúffan mín er svo stór) og í flýtinum við að skrifa þetta skrifaði ég líka það sem ég hafði ekki ætlað að skrifa. Eitthvað um að best væri að tvöfalda uppskriftina ef maður væri með stóra ofnskúffu.

Svo ekki er nú öll vitleysan eins. Er búin að vera að finna til verkja í einni tönn þegar ég borða og drekk eitthvað kalt og heitt. Fór til tannsa og hann fann hvaða tönn það væri. Boraði og þegar hann var að vinna í tönninni fannst mér svo skrítið að ég fyndi enn þennann skrítna verk. Hann sagði að oft leiddi þetta út um allt frá einni tönn. Seinni partinn þegar deifingin fór úr var þetta eins og áður en ferðin til tannsa hófst. Hann hafði borað vitlausa tönn. Hann var einmitt að furða sig á því að ég fyndi þennan mun með pínkuponsu skemmd. Og enginn tími laus fyrr en eftir páska.

 


AÐVÖRUN ! LESIST STRAX.

ÞETTA ER ALVARLEGT OG SNERTIR ÞIG !

Ef þú færð sent umslag frá samtökum sem kallast "Ríkisskattstjóri"
SKALT ÞÚ EKKI OPNA ÞAÐ!!. Þessi hópur manna
("Ríkisskattstjórahópurinn", skammstafað RSK) er með stórt svindl í
gangi á þessum tíma árs á hverju ári.

Í bréfi þeirra krefja þeir þig um upplýsingar um tekjur, eignir og
útgjöld í þeim tilgangi að hafa af þér peninga sem þeir kalla ýmist
"skatta" eða "opinber gjöld" eða "álagningu". Þessa peninga segja þeir
munu notaða til þess að standa undir nauðsynlegum ríkisrekstri.

Það er lygi! Peningarnir fara í ýmis verkefni og bitlinga fyrir menn
þessa hóps, félaga og fjölskyldur þeirra og til fyrirtækja sem keppa
við þitt fyrirtæki og þrífast á ríkisstyrkjum, auk listamanna sem geta
ekki selt verkin sín.

Þessi samtök eru í tygjum við önnur samtök sem kallast "Sveitarfélög"
sem einnig stunda svindl af sama tagi og í samstarfi við RSK og hafa
einnig haft milljarða króna af saklausum almenningi.

Þessir blekkingamenn hafa blekkt peninga úr ótrúlegum fjölda
heiðarlegra íslanskra launþega og er ekki um neinar smáupphæðir að
ræða!

EKKI LÁTA BLEKKJA ÞIG!

HENTU BRÉFINU!



Glimmer, glimmer.

Þegar ég fór til Kanarí vildi maðurinn minn endilega gefa mér peysu eða bol. Og ég vil sko ekki hvað sem er. Leist ekki á neitt í búðunum á ensku ströndinni svo við skruppum til Las Palmas svo ég fyndi nú örugglega eitthvað við hæfi. Maðurinn minn var orðinn býsna þreyttur á búðarrápinu enda var ég ekki búin að finna neitt eftir 3 klst. rölt eftir aðal verslunargötunni þarna. Loksins kom að því að ég sá einn í glugganum sem mér leist vel á. Það var frekar vandræðalegt að fara inn því einhver betlari hreinlega hékk á manninum mínum, við losnuðum ekki við hann fyrr en ég tróð peningi í lófann á honum, kreppti hann saman og ýtti manga gamla út um dyrnar( ha,ha, hann vissi ekki að þetta var íslensk króna, verðlaus). Keypti geðveikt flottan bol, svona með hlébarðamynstri og allur út í litlum glimmerflögum. Nokkrum dögum eftir heimkomuna ákváðum við að fara á djammið enda vel við hæfi þar sem við vorum rétt búin með tollinn og langaði í meira. Ég fór náttúrulega í flotta bolnum mínum. Svona eftir nokkur glös var ég fær í flestan sjó og rauk út á gólfið. Dansaði eins og brjálæðingur um allt. Allt í einu veit ég ekki fyrr en að það er búið að slá hring um mig og allir klappa fyrir mér. Ég hugsaði að fólkið væri eitthvað galið enda er ég engin fegurðardrottning né neitt annað. Leit í kringum mig og sá ekkert óvanalegt, en þegar ég fór að renna augunum til hliðar sá ég hvar ein glimmerflagan var á fullri ferð út í sal. Leit ég þá sem snöggvast niður og ó, mæ good! Voru ekki flestar glimmerflögurnar losnaðar að bolnum og lágu hingað og þangað á gólfinu . En samt var þetta nokkuð smart því ljósin í loftinu lýstu á þær og gerðu allt svo flott. Ég ákvað þarna á staðnum að ljúga einhverju sniðugu að mínu fólki ef það spyrði. Ætlaði nú ekki að segja að ég hefði keypt köttinn í sekknum. Svo ég sagði að ég hefði keypt bolinn í grínbúð og glimmerið hefði átt að detta af, náttúrulega haugalygi en hvað gat ég annað í þessari stöðu! Svo kom maður heim undir morgun vel við skál, droppaði um alla íbúð og fór loks að sofa. Þegar ég vaknaði svo voru restarnar af glimmerinu um alla íbúð. Þá neyddist ég til að taka til hendinni, sem ég geri afar sjaldan. Skúra, ryksuga og svoleiðis. OJ!!!!!

Barnahjal.

Alveg er það furðulegt hvað það eru margar prinsessur og prinsar á Íslandi. Mikið hafa erlendir þjóðhöfðingjar verið lauslátir þegar þeir voru á ferð um landið. Ef maður gúgglar eitthvað íslenskt nafn helst svolítið furðulegt mannanafn( Reyrhildur, Engilríður Ýr, Ljótur, Svartur, Starkaður og fleiri ónefni) fær maður upp fullt af barnasíðum þar sem prinsessa eða prins eiga hlut að máli.Landinn þarf að fara að passa sig.Svo eru foreldrar brjálaðir yfir því að barnið sé lagt í einelti. Eru foreldrar ekki að stuðla að því með þessum ónefnum? Var að vinna um helgina og þá var mamman að fara og ca. 6 ára stelpan hennar stóð hjá mér: Hrafntinna mín komdu, við erum að fara. Þá rifjaðist upp fyrir mér bílslysið nýjasta sem maðurinn minn lenti í, er það var á Hrafntinnuskeri. Hugsið ykkur það heitir Hrafntinnusker. Ef maður skrifar það aðeins vitlaust gæti einhver hugsað sem svo að ritarinn væri morðingi. Hrafntinnu sker!!! O my good...
Frumlegasta nafnið heyrði ég svo í dag í vinnunni.
Ég var við tölvuna þegar inn kemur koma og sagðist hafa gleymt kortinu sínu. Ekkert mál sagði ég. Gefðu mér bara upp nafnið og ég fletti þér upp. Sólrún heyrðist mér hún segja, ég slæ því upp og fann hana ekki. Sagði svo við konuna: sagðistu ekki heita Sólrún? Nei, ég heiti Sólbrún sagði konan.. einmitt sagði ég og hreinlega hélt að konan væri að djóka( eins gott að ég sagði ekki það sem ég var nærri búin að segja: einmitt og ég er Silvía Nótt)en sló samt nafninu upp í tölvunni. Og mikið rétt, konan heitir Sólbrún. Ég flýtti mér að afgreiða hana og sló nafninu aftur inn í tölvuna. Skoðaði þetta vel með hinum og það sem er svo sniðugt að konan hlýtur að vera mikið fyrir ljós, því hún er sólbrún í framan allavega.

Annars eru kvenmannsnöfnin Hrafntinna og Sólbrún bara falleg. Maður þarf bara að venjast þeim.

Nú, nú, ef maður finnur myndasíður af börnum stendur í 99% tilvika orðið: sætastur eða sætust fyrir neðan. Stundum eru mömmurnar líka að monta sig á spjallrásunum og verða hver af annarri að sína mynd af prinsinum, prinsessunni, sætasta eða sætustu þó að viðkomandi barn sé svoleiðis rangeygt að það sér í kross, stundum er það með hryllilega útstæð eyru nú og svo er það brosandi út að eyrum og búið að missa tennur. Smekklegt...

Það þekkist ekki óþekkt í dag.. Í gamla daga voru börn óþekk og fengu viðeigandi meðferð, nefnilega rassskell. Eftir hann hætti barnið óþekktarkastinu og hafði sig lítt frammi í dálítinn tíma. Í dag má ekki rassskella börn, maður gæti átt von á kæru, en allavega getur maður bókað að Barnavernd mæti á svæðið og dæmi mann óhæft foreldri..Í dag eru engin börn óþekk, nei þau eru upp til hópa misþroska með athyglisbrest. Þetta er bráðsmitandi sýking og varir uppeldisárin, alveg þar til unginn er floginn úr hreiðrinu. Og til að kóróna nú herlegheitin fær foreldrið ummönnunarbætur fyrir óþekktina í barninu. Svona til að vega á móti kostnaði sem hlýst af bræðiköstunum þegar barnið brýtur eitthvað og svoleiðis.

Í dag þarf annað hvert barn talkennslu. Er það eitthvað skrítið? Allt frá fæðingu hefur barnið séð risastóru skrímslin koma og segja: úllí, gúddí, gúdd.Foreldrar segja ekki snuð, nei, dudda heitir það. og lengi má telja. Ég er nokkuð viss um að þegar barnið sér manneskju yfir sér þá hugsar það: Ekki til að tala um að ég segi stakt orð að viti hér, hálvitinn atarna myndi hvort sem er ekki skilja það.Svo auðvitað blaðrar það bara tóma steypu. Enda veit barnið að eftir því sem það bablar meira þeim mun hrifnari verða foreldrarnir.Svo snýr foreldrið sér við og barnið andvarpar af létti, snýr sér á hliðina og fer að sofa.

Sá skrif eftir manngrey um daginn. Garmurinn og frúin voru á leið erlendis í rómantíska ferð. Þá degi áður en var farið þurfti ekki kerlingarassgatið að byrja á túr. Karlinn kvartaði að ferðin væri svoleiðis ónýt fyrir sér.
En hann athugaði ekki eitt,, þegar heiðin er lokuð, eru þrengslin alltaf fær.

Framandi matur og ferlegt klúður.

Við hjónakornin skruppum í algjöra draumaferð, fyrir nokkrum árum, til Tenerife á Kanaríeyjum rétt fyrir jól.Vorum þarna á 5 stjörnu glæsihóteli með morgun og kvöldmat inniföldum.Kvöldverðarborðið var rosalega glæsilegt og mjög fjölbreytt. Borð sem svignaði undan köldum salötum kennd við ýmis lönd. Þarna var rússneskt salat, enskt salat og fleiri og fleiri lönd nefnd. Svo voru heitir réttir og alltaf tveir kokkar stóðu vaktina og annar eldaði kjöt, hinn fisk.Eitt kvöldið fór ég að hræra í einum pottréttinum þarna. Sá þá að það voru kolkrabbalappir í honum. Ég ákvað að prófa þennan spennandi rétt. Þjónarnir voru á þönum fram og til baka með borðvínin handa gestunum og nóg að gera. Við sátum alltaf á borði alveg við ganginn svo við þyrftum ekki að labba langt í matinn.Ég settist niður með minn pottrétt og smakkaði fyrst á gúmmelaðinu( sósunni) Hún var góð svo ég ákvað þá að éta þessar lappir. Fór að munda gaffalinn og ætlaði að stinga honum í eina löppina á disknum, þá vildi ekki betur til, af því að þetta var víst ólseigt, að andskotans löppin skaust beint af diskinum og út á gólf. Auðvitað þurfti hún að lenda á miðjum ganginum. Ég leit til hægri og vinstri til að athuga hvort fólkið á næstu borðum hefði séð þetta óhapp. NEI, ég slapp. Eftir smátíma kemur þarna þjónn labbandi með rauðvín og tvö glös á bakka. Eins og þjónum er tamt, þá labbaði hann bísperrtur áfram í áttina til okkar. Karlhlunkurinn þurfti auðvitað að stíga beint á kolkrabbalöppina. Löppin sem lenti á kolkrabbanum fór á flug áfram og þjónninn vaggaði óeðlilega mikið til hægri og vinstri. Þegar hann var um það bil að detta þurfti hann þá ekki að glopra bakkanum upp í loft og svo hallaðist bakkinn og lenti á borði þarna hinu megin í salnum. Þar sat fín frú, komin í kvöldklæðnaðinn, flottan satínkjól drapplitaðan,skipti það engum togum að rauðvínsflaskan þurfti auðvitað að lenda á konuskarninu. Hún náttl. æpti og stökk upp úr sætinu blóðrauð í framan af rauðvínssullinu og kjóllinn allur út í rauðum blettum. Von bráðar komu fullt af þjónum og stumruðu yfir konunni og fóru með hana fram, örugglega til að þrífa kjólinn.Ungþjónninn varð eftir, tók upp servéttu, beygði sig niður og tók eitthvað upp. Þarna var kolkrabbalöppin komin í fallega servéttu. Þegar þarna var komið við sögu, stóð ég upp og leit mig hverfa út um dyrnar. Fór í mollið við hliðina á hótelinu og fékk mér pizzasneið.

Fyrsta og eina ferðin mín í fjölskyldugarðinn!

Einhverju sinni bauð pabbi mér og strákunum í fjöldskyldugarðinn, í pylsupartý og. fl. á vegum vinnunnar hans.Ég hafði nú aldrei komið þangað áður og eins og vanalega var ég orðin töluvert á eftir áætlun, pylsurnar áttu að vera kl. 13 og klukkan var orðin 13.20. Ég spyr strákinn minn hvar pylsurnar séu grillaðar og hann bendir á einhvern stað. Við þangað og þar var ein kona að gæða sér á pylsu og verið að grilla aðra. Strákurinn hvarf eitthvað og ég hugsaði sem svo að grillið væri örugglega búið þar sem klukkan var nú orðin 13.30. Ég heppin að það ein eftir á grillinu. Strunsa þangað og veiði hana af grillinu með lægni, þar sem hún var sjóðandi heit. Þetta er pylsan mín segir þá konugreyið, afsakið segi ég og hugsaði að þær voru þá bara búnar. En pylsubrauðin voru ekki búin svo ég fékk mér eitt. Kom þá ekki skassið og hrifsaði hana af mér með þeim ljótustu formælingum sem ég hef heyrt, man ekki hvað það var en það endaði á þessum orðum,að hún ætti brauðin líka . Ég blóðroðnaði og flýtti mér út. Sé ég þá ekki í bláendann á einhverju risatjaldi og það liðaðist reykur út þaðan. Ég kíkti fyrir horn og stendur ekki pabbi þar og segir: Það er mikið að þú kemur, flýttu þér nú að fá þér pylsu áður en þær klárast, en ég var bara búin að missa lystina á pylsum þá stundina .

Ævintýrasigling, nei þetta varð eitthvað annað!

Fyrir mörgum mánuðum pantaði mamma sér ferð í siglingu um Karabíahafið ásamt annarri konu. Þær ætluðu að ferðast saman. Innifalið í ferðinni var flug til New York, gisting þar í tvær nætur,siglingin, allur matur og drykkur og kannski eitthvað meira sem ég tel ekki með. Ég las um þessa ferð í bæklingnum og þetta var algjör draumaferð í alla staði. Þær áttu t.d. að hafa klefa á skipinu sem var um 50 fermetrar og um borð var bíó, danssalir, spa, búðir, hárgreiðslustofa og fl. og fl. sem of langt er að telja upp.

Loksins rann þessi langþráði dagur upp, dagurinn sem draumaferðin hefst.
Þegar þær voru í  hér úti á velli var hin konan stoppuð og sagt: þú getur ekki notað þennan passa til Bandaríkjanna. Konan hváði, það verður að vera segulrönd( eða eitthvað þannig) á passanum.

Þær urðu að redda þessu í einum grænum því þær auðvitað komu út á völl 2 tímum fyrir brottför.Mamma hringdi í systur mína og hún hringdi út og suður og eftir mikla fyrirhöfn og mörg símtöl hringdi hún í mömmu og sagði henni að hún hefði náð að fá sérstaka flýtimeðferð og vegabréfið væri til, þær yrðu bara að sækja það í bæinn.Tóku þær þá leigubíl frá Leifsstöð( farangurinn var að sjálfsögðu búinn að fara í gegn)og inn í Rvík til að ná í vegabréfið. Gustaði svo mikið af kerlingunum að það sá í iljarnar á þeim þegar þær hlupu inn til að ná í vegabréfið. Bíllinn beið á meðan. Þær komu svo út og báðu bílstjórann að aka eins hratt og honum væri stætt út á Leifsstöð. Stukku þær svo út úr bílnum þar og ruku inn.

Það er það af bílstjóranum að segja að þegar hann var kominn í burtu frá flugstöðinni tók hann eftir GSM síma í aftursætinu. Tók upp símann og hringdi í síðasta símanúmerið sem var hringt í úr símanum. Lendir þá á systur minni sem reddaði vegabréfinu og hún bað hann að fara með símann út á flugstöð, hún skildi láta vita að sími væri væntanlegur á Leifsstöð í flug til Bandaríkjanna.Að sjálfsögðu sagði hún að kerlingarnar skyldu borga bílinn.

Nú kerlingarnar ruku inn og að innritunarborðinu aftur. Þeim var þá sagt að vélin væri farin.Þarna hafa þær staðið eins og villuráfandi sauðir. Sá konan á innritunarborðinu aumur á þeim og sagði að hún gæti reddað 2 sætum í flug til Boston því það hefði orðið seinkun á þeirri flugvél. Og eins gæti hún reddað flugi frá Boston til New York, en það væri auðvitað aukaflug og það kostaði 20 þúsund.Mamma varð að hringja í systur mína, biðja hana að fara á einkabankann sinn og millifæra á debetkortið 20 þúsund. Hún hafði bara einhvern smá vasapening með á debetkortinu. Þær tóku nú gleði sína aftur og flugu með vélinni.

Í New York voru þær í tvo daga svo kom skipið sem þær áttu að sigla með. Þegar þær voru að stíga um borð voru þær að sjálfsögðu beðnar um vegabréfin sín. Fann þá ekki konan þetta rándýra glænýja vegabréf. Hún leitaði og leitaði en fann ekki bréfið hvernig sem hún leitaði. Urðu þær þá að fara frá borði og skipið sigldi sína leið án tveggja farþega.

Þær urðu að vera í New York þessa 8 daga sem draumaferðin átti að standa. Urðu þær nú að leita sér að gistingu þessa daga og fengu inni á hóteli. Mátti hver um sig borga 80 þúsund fyrir það. Auðvitað var enn meiri óheppni með, því mamma var bara með debetkort og í Bandaríkjunum er ekki hægt að nota það.Hringdi mamma þá í systur mína( auðvitað) og bað hana að hafa samband við Visa til að athuga hvort það væri einhver möguleiki að redda korti í einum grænum. Þeir gátu reddað þessu.Um kvöldið uppi á herbergi fer konan eitthvað að gramsa í ferðamannaveskinu sínu( svona tuðra sem maður er með framan á sér) og finnur blessað vegabréfið!!! Daginn eftir ósköpin öll var hringt til mömmu á hótelið og þá var það maður sem sagðist vera með pening til hennar frá Íslandi. Þá var því reddað! Konan sem var með mömmu tók bara með sér stuttermaboli og þannig fatnað svo hún var að drepast úr kulda þarna. Þær fóru í búðir en þar var enga hlýja peysu að fá. Allt bara sumarfatnaður. Mamma gat látið konuna hafa eina af peysunum sínum, en hún var eins og í spennitreyju í henni enda munar nokkrum númerum á þeim.

Núna er mamma komin heim og hefur ekki enn sagt okkur söguna af draumasiglingunni, hvítu ströndunum og kókospálmunum.

Sá hlær best sem síðast hlær!!

Fórum í ferð í sumar um hálendið. Við vorum með tjald sem 5 gistu í og svo voru hjón með tjaldvagn. Í fyrsta næturstaðnum voru hjónin að gera góðlátlegt grín að okkur.. Eruð þið enn að tjalda? Við erum búin og búin að grilla og borða.
Keyrðum svo yfir hraun og svoleiðis næsta dag. Eitt dekkið á tjaldvagninum gaf sig og felgan var orðin bogin, skipt um dekk og haldið áfram. Aftur sprakk og þá voru góð ráð dýr. Þau urðu að keyra um með sprungið á vagninum. Við hjónin vorum fyrir aftan þau og sáum hvar dekkið skaust af felgunni og felgan byrjaði að tætast upp. Aftur stoppað og farið að spá og spekúlera. Sást þá að nefhjólið hafði bognað.Þau settu þá hitt sprungna dekkið undir vagninn og svo var haldið áfram. Stoppuðum til að teygja úr okkur og hundurinn hjónanna stökk út og hljóp eitthvað. Þegar við vorum að leggja af stað var kallað á hundinn, hann stökk upp í aftursætið og svo var lagt af stað. Ekki var búið að fara nema fetið þegar hjónin stoppuðu, hún kom út með blauttissjú, opnaði afturdyrnar og byrjaði að þrífa hundinn. Hann hafði þá fundið mannaskít og velt sér upp úr honum svo ekki var hann né sætið glæsilegt.Lögðum svo af stað aftur.
Dekkið fór fljótlega af felgunni og hún varð minni og minni. Stoppuðum og tókum myndir af henni þegar hún var alveg ferköntuð( hef aldrei séð svoleiðis felgu) aftur stoppað og þá var hún orðin á stærð við kökudisk. Við urðum að keyra að næsta landverði og biðja hann að fylgjast með vagninum af því að hann yrði skilinn eftir þar. Hjónin urðu að fara til Reykjavíkur til að kaupa dekk og felgu, en við gátum haldið áfram för þangað sem allir ætluðu að fara. Núna er vagninn kominn með dekk en þau eru útskeif. Skeði líka eitthvað fyrir öxulinn. Tjaldið okkar er í fínu dekkið1 lagi!! dekkið

Næsta síða »

Höfundur

Birna Steingrímsdóttir
Birna Steingrímsdóttir

 Útivinnandi og húsmóðir í hjáverkum.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband